Þórir: Stundum þarf að segja hlutina eins og þeir eru

Þórir Hergeirsson tekur leikhlé í kvöld.
Þórir Hergeirsson tekur leikhlé í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs í handbolta í kvennaflokki var skiljanlega kátur eftir 27:18 stórsigur á Danmörku í 2. umferð A-riðils á Ólympíuleikunum í París í dag. Norska liðið tapaði fyrir Svíþjóð í fyrsta leik en lék gríðarlega vel í dag.

„Þetta er góður og vinnusamur hópur með góð gildi. Það voru allir reiðir, sárir og leiðir eftir leikinn á móti Svíum, sem við köstuðum frá okkur. Við klikkuðum á 15 dauðafærum og gerðum 12 tæknifeila.

Það var góður andi í hópnum eftir að hann fór í gegnum þetta nóttina eftir leik. Það mættu allir í vinnugallann morguninn eftir og hafa gert þetta gríðarlega vel,“ sagði Þórir við mbl.is eftir leikinn í dag.

Þórir Hergeirsson á bekknum í dag.
Þórir Hergeirsson á bekknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stundum þarf maður að segja hlutina eins og þeir eru. Stundum þarf maður að styðja og hjálpa leikmönnum upp og sýna þeim hvað þeir gerðu vel. Það var margt mjög gott í Svíaleiknum.

Það er stundum þannig í þessum boltaíþróttum að það er allt lélegt þegar þú tapar og maður man bara eftir þessu lélega en ekki því góða. Þegar þú vinnur er allt gott og þú ert búinn að gleyma þessu lélega. Við erum með vinnuferli eftir svona og við einbeitum okkur að því góða,“ bætti Þórir við.

Blaðamaður mbl.is í París vildi endilega ræða lengur við Þóri, um Ísland og fleira, en fjölmiðlafulltrúi norska liðsins var lítt hrifinn af þeirri hugmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert