Ólympíustjarna með Covid-19

Adam Peaty hefur greinst með Covid-19.
Adam Peaty hefur greinst með Covid-19. AFP/Manan Vatsyayana

Sundkappinn Adam Peaty hefur greinst með Covid-19 degi eftir að hann vann til silfurverðlauna í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París í gær. 

Ítalinn Nicolo Martinenghi vann gull en Peaty deildi silfurverðlaununum með Bandaríkjamanninum Nic Fink. Anton Sveinn McKee tók þá einnig þátt í 100 metra bringusundinu og hafnaði í 25. sæti. 

Eftir sundið viðurkenndi Peaty að hann hafi verið örlítið slappur. Forráðamenn breska ólympíuliðsins sögðu í tilkynningu í dag að ástand Peaty hafi versnað og að hann væri með Covid-19 veiruna. 

Það eru engar strangar reglur varðandi sjúkdóminn á þessum Ólympíuleikum, ólíkt þeim sem fóru fram í Tókyó fyrir þremur árum.

Peaty er skráður í boðssundssveit Bretlands sem keppir á föstudaginn og kom jafnframt fram í tilkynningunni að ástand hans verði metið frá degi til dags. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert