Anton: Beint heim að borða og sofa

Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds í dag.
Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög sáttur,“ sagði Anton Sveinn McKee í samtali við mbl.is eftir að hann tryggði sér sæti í undanúrslitum í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París. Anton var með níunda besta tíma allra en 16 efstu fóru áfram.

„Þetta var útfært eins og ég ætlaði mér og það er geggjað að vera níundi áfram. Þetta verður hörkubarátta í kvöld,“ sagði Anton og hélt áfram:

„Mér leið mjög vel. Þetta var yfirvegað og ég keyrði vel á þriðja fimmtu. Ég ákvað að vera ekki að hamast of mikið í lokin, frekar að halda tækninni. Að halda tökunum skilar meiri hraða en að fara að rembast of mikið.

Anton Sveinn McKee
Anton Sveinn McKee Kristinn Magnússon

Það er einhver gír sem ég þarf að finna í kvöld til að keyra á síðustu 20 metrana. Heilt yfir var þetta samt gott sund. Nú þarf að klára þetta með stæl í kvöld,“ sagði hann.

Anton verður að lenda í einu af átta efstu sætunum í undanúrslitunum til að keppa í úrslitum á morgun.

„Ég hef keppt margoft við þessa gaura og ég veit vel ég get verið í topp átta. Þetta verður ótrúlega skemmtilegt í kvöld en ég þarf að finna minn gír.“

Undanúrslitin fara fram í kvöld og er planið einfalt hjá Antoni þangað til. „Beint heim að borða og sofa, þetta er rosalega einfalt,“ sagði Anton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert