Anton eftir síðasta sundið: Ekkert skilið eftir

Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds á Ólympíuleikunum í …
Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds á Ólympíuleikunum í síðasta skipti. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður gaf allt í þetta og það var ekkert skilið eftir,“ sagði Anton Sveinn McKee í samtali við mbl.is eftir að hann synti sitt síðasta sund á ferlinum á Ólympíuleikum.

Anton endaði í 15. sæti í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum og var nokkuð frá sínum besta tíma. Missti hann því af sæti í úrslitum.

„Ég byrjaði aðeins of ákaft of snemma í morgun. Núna ætlaði ég að vera mýkri og lengri framan af til að eiga nóg inni. Við reyndum að vinna þetta þannig en því miður var það ekki nóg. Ég gerði mitt besta og lifi með því,“ sagði hann.

Anton var að ná sínum besta árangri á Ólympíuleikunum. Hann var svekktur að fara ekki áfram en að sama skapi stoltur af afrekunum á ferlinum.

Anton Sveinn McKee
Anton Sveinn McKee Kristinn Magnússon

„Maður er keppnismaður og vill alltaf það besta en í lok dags getur maður ekki verið að grafa sig niður þegar maður hefur helgað lífi sínu að þessu. Þessi vegferð snerist um hversu langt maður geti komist.

Það er ótrúlegt að standa hérna eftir að hafa keppt í undanúrslitum. Auðvitað vildi maður keppa í úrslitum en ég fer ekki svekktur heim frá París,“ sagði hann og hélt áfram: 

„Ólympíuleikarnir er sá staður og stund þar sem allir vilja toppa á sama tíma. Það skiptir allt mestu máli. Að komast í undanúrslitin er eitthvað sem ég get verið mjög stoltur af,“ sagði Anton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert