Fjármagnar ÓL-liðið úr eigin vasa

Luol Deng á Ólympíuleikunum ásamt leikstjóranum og körfuboltaáhugamanninum Spike Lee.
Luol Deng á Ólympíuleikunum ásamt leikstjóranum og körfuboltaáhugamanninum Spike Lee. AFP/Denis Charlet

NBA-leikmaðurinn fyrrverandi, Luol Deng, er forseti körfuknattleikssambands Suður-Súdan. Deng hefur byggt upp landslið yngstu þjóðar heims upp á sitt einsdæmi og nú er liðið mætt á Ólympíuleikana.

Deng var öflugur leikmaður í NBA-deildinni og lék þar í fimmtán ár. Hann var hluti af mögnuðu Chicago Bulls-liði þar sem hann lék með Derrick Rose, Joachim Noah og Carlos Boozer undir stjórn Tom Thibedau en lék að auki fyrir Cleveland, Miami og Los Angeles Lakers.

Leikmenn Suður-Súdan fagna sigrinum gegn Púertó Ríkó á sunnudag.
Leikmenn Suður-Súdan fagna sigrinum gegn Púertó Ríkó á sunnudag. AFP/Sameer Al-Doumy

Fjölskylda Deng flúði Súdan þegar Deng var barn að aldri og ólst hann upp í London. Deng lék á Ólympíuleikunum 2012 fyrir Bretland en Súdan átti ekki landslið á þeim tíma. Borgarastyrjöld geisaði í Súdan áratugum saman, allt frá sjálfstæði þjóðarinnar frá Egyptum (undir stjórn Breta) árið 1956.

Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki árið 2011, sama ár og Bulls-lið Deng tryggði sér fyrsta sætið í Austurdeild NBA-deildarinnar fyrir ofan Miami Heat, lið skipað Lebron James, Dwyane Wade og Chris Bosh. 

Launatölur Luol Deng frá tíma hans hjá Los Angeles Lakers. …
Launatölur Luol Deng frá tíma hans hjá Los Angeles Lakers. Hann borgar allan kostnað landsliðs Suður-Súdan. Skjáskot

Deng tók við sem forseti körfuboltasambandsins í Suður-Súdan 2019 og hefur síðan borgað úr eigin vasa allan kostnað við að halda úti landsliðinu. Liðið vakti gríðarlega athygli í æfingaleik fyrir mótið þegar sigurkarfa Lebron James á lokasekúndunni afstýrði óvæntum sigri Suður-Súdan á stjörnum prýddu liði Bandaríkjanna.

Suður-Súdan lagði Púertó Ríkó í fyrsta leik liðsins á Ólympíuleikunum á sunnudaginn og áhugavert verður að fylgjast með árangri liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert