Snæfríður: Skrítið að þetta sé búið

Snæfríður Sól Jór­unn­ar­dótt­ir stingur sér til sunds í dag.
Snæfríður Sól Jór­unn­ar­dótt­ir stingur sér til sunds í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var ágætt morgunsund og alveg við mitt besta. Það hefði verið gaman að setja Íslandsmet en það kemur bara næst,“ sagði Snæfríður Sól Jórunnardóttir í samtali við mbl.is eftir að hún hafnaði í 19. sæti í 100 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í París.

Snæfríður komst í undanúrslit í 200 metra skriðsundi, en það tókst ekki í 100 metrunum og hefur Snæfríður því lokið við keppni á Ólympíuleikunum í ár.

„Það er skrítið að þetta sé búið. Nú fer maður í gott frí og fær hausinn á réttan stað aftur. Þetta er búið að vera mjög gaman og það var stórt skref fyrir mig að komast í undanúrslit. Ég vildi ná betri tímum en maður tekur það jákvæða með sér úr þessu,“ sagði hún.

Snæfríður ætlar að njóta þess að slaka aðeins á en það hefur verið nóg um að vera undanfarnar vikur í undirbúningi fyrir leikana.

„Ég fer fyrst til Danmerkur og svo sjáum við til. Ég er ekki með mikil plön núna. Það er ekki oft sem ég er hvorki að synda né í skóla og ég þarf að komast að því hvað ég vil gera þá.

Núna ætla ég að halda mér frá lauginni í smá stund og fá að hlakka til að synda næst,“ sagði Snæfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert