Edda datt illa og endaði í 51. sæti

Guðlaug Edda Hannesdóttir á fleygiferð í dag.
Guðlaug Edda Hannesdóttir á fleygiferð í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaug Edda Hannesdóttir hafnaði í 51. sæti af 56 keppendum í þríþraut á Ólympíuleikunum í miðborg Parísar í dag. Edda var að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum. 

Hún kom í mark á 2:10:46, klukkutímum. Cassandre Beaugrand frá Frakklandi varð Ólympíumeistari á 1:54,55, Julie Derron frá Sviss náði í silfurverðlaun og Beth Potter frá Bretlandi tók bronsið. 

Edda, eins og hún er oftast kölluð, var í 47. sæti eftir sundið. Synti hún 1,5 kílómetra í ánni Signu á 24:49 mínútum.

Sundkeppnin í Signu var ekki staðfest fyrr en klukkan 4 í nótt, þar sem mengunin í ánni undanfarna daga hefur verið of mikil. Var karlakeppninni t.d. frestað í gær vegna þessa. 

Eftir sundið tók við 40 kílómetra hjól sem Edda kláraði á 1:03,25 klukkutíma og var eftir það í 50. sæti. Það gekk ekki áfallalaust fyrir sig því hún datt illa á sleipri brautinni en hélt áfram og kláraði. 

Að lokum hljóp Edda 10 kílómetra á 40:55 mínútum.

Guðlaug Edda Hannesdóttir stingur sér til sunds í dag.
Guðlaug Edda Hannesdóttir stingur sér til sunds í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert