Mættur til Parísar eftir óhugnanlegt slys

Anders Lind er mættur á Ólympíuleikana í París.
Anders Lind er mættur á Ólympíuleikana í París. AFP/Yeon-je Jung

Daninn Anders Lind er mættur til leiks í borðtennis á Ólympíuleikunum í París, þremur árum eftir að hann lenti í óhugnanlegu bílslysi. Lind þurfti að læra að ganga upp á nýtt eftir slysið en er nú mættur á stærsta sviðið.

Lind bakbrotnaði alvarlega í slysinu og var tjáð að hann myndi aldrei stunda íþróttina sína aftur, en hann var heppinn að ekki fór mun verr.

„Ég grét í þrjár vikur því ég missti af leikunum í Tókýó eftir slysið. Allir læknar sem ég talaði við sögðu að ég myndi aldrei keppa aftur. Venjulega eru menn lamaðir eftir svona brot en ég var heppinn og gat lært að ganga upp á nýtt,“ sagði Lind í viðtali sem var birt á heimasíðu Ólympíuleikanna í París.

„Sem betur var enginn alvarlegur taugaskaði. Ég byrjaði á að labba 20 metra á dag, síðan 40 og eftir það 60. Eftir nokkra mánuði gat ég skokkað hægt. Það var járnstöng sem hélt bakinu á mér saman á meðan. Þetta hefur verið langt ferðalag en ég sé ekki eftir neinu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert