Vissi að draumurinn væri farinn þegar ég datt

Guðlaug Edda Hannesdóttir á fleygiferð á hjólinu í dag.
Guðlaug Edda Hannesdóttir á fleygiferð á hjólinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaug Edda Hannesdóttir endaði í 51. sæti í þríþraut á Ólympíuleikunum í París í morgun. Í þríþraut er keppt í sundi, hjóli og síðan hlaupi. Edda var á fínu skriði þegar hún varð fyrir því óláni að detta af hjóli sínu með þeim afleiðingum að hún datt aftur úr.

„Ég er oftast mjög góð tæknilega en ég var óheppin hvernig ég var í hópnum. Ég var að taka beygju og það voru hvítar gangbrautarstrípur á veginum og ég lenti akkúrat á strípunni í beygjunni. Við það missti ég gripið og datt.

Það var erfiður tímapunktur því þetta var akkúrat í miðju hjólinu sem þýðir að ég þurfti að hjóla restina ein, sem er mjög erfitt þegar maður er að hjóla á móti stelpum sem eru að hjóla saman,“ útskýrði Edda við mbl.is eftir keppnina.

Guðlaug Edda Hannesdóttir
Guðlaug Edda Hannesdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Keppnin fór fram í miðborg Parísar, nálægt mörgum kennileitum borgarinnar. Mátti sjá Sigurbogann og Eiffel-turninn í bakgrunninum á meðan hún hjólaði og hljóp í frönsku höfuðborginni.

„Þetta var magnað. Sundið var rosalega kaótískt. Fyrsti hringurinn var mjög góður en í seinni hringnum missti ég taktinn. Ég var meira að lenda í baráttu við stelpur en að synda. Það er frekar pirrandi en það getur gerst þegar maður er í þríþraut.

Hjólið var magnað og það var geggjaður stuðningur. Það var bara ótrúlega leiðinlegt að hafa dottið. Ég gafst ekki upp og ég er ánægð með það. Það voru fleiri sem duttu og þær kláruðu ekki allar. Ég stóð upp og hélt áfram.

Það var erfitt andlega að missa taktinn. Ég vissi að draumurinn um topp 30-35 væri farinn þegar ég datt. Það tók á andlega að reyna að halda sér jákvæðum og halda sér gangandi. Það er alltaf auðveldara að hætta en ég ákvað að halda áfram því ég lagði mikið á til að vera hérna,“ sagði Edda.

Guðlaug Edda Hannesdóttir
Guðlaug Edda Hannesdóttir Kristinn Magnússon

Hún gat lítið notið útsýnisins á meðan á keppninni stóð. „Maður sér bara áfram. Maður sá aðeins fjölskylduna í hlaupinu en annars sér maður ekki neitt. Það var geggjað að sjá fólk peppa mann og hvetja áfram.“

Edda vissi það ekki fyrir víst hvort keppnin færi fram í dag þar sem áin Signa hefur verið of menguð til að keppa. Klukkan 4 í nótt fékk hún staðfestingu á að keppnin yrði klukkan 8 að staðartíma.

„Planið var alltaf að vakna um 4 því við þurfum að mæta í rútu klukkan 5 og við vildum borða morgunmat á undan. Svo sá maður tölvupóstinn um að keppnin væri á og þá var eins gott að gera sig tilbúinn. Ég svaf fínt og þetta var í lagi.

Þessi fréttaflutningur síðustu daga var smá stressandi og sérstaklega eftir að þeir frestuðu karlakeppninni. Maður var ekki viss hvort þetta færi af stað, það var áhugavert. Ég hef synt í svipað skítugu vatni áður og það hefur ekki verið neitt vesen“ sagði hún.

Guðlaug Edda Hannesdóttir
Guðlaug Edda Hannesdóttir Kristinn Magnússon

Edda er nýkomin til baka eftir meiðsli og því mikið afrek fyrir hana að keppa á Ólympíuleikum, þrátt fyrir að keppnin hafi ekki gengið að óskum.

„Ég er búin að vera svo mikið meidd og ég þarf tíma til að ná fyrri styrk. Ég flýtti því rosalega að koma til baka og meira en ég hefði viljað því ég vildi ná þessu lágmarki. Ég ýtti mér rosalega langt.

Eftir að ég kláraði lágmarkstímabilið var ég þreytt bæði líkamlega og andlega. Núna ætla ég að gefa mér tíma til að slaka aðeins á og síðan byggja upp meira þol. Ég þarf meiri grunn því ég hef ekki getað æft. Maður slakar á í nokkra daga svo byrjar maður að vinna á ný,“ sagði Guðlaug Edda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka