Serbinn Novak Djokovic er kominn í undanúrslitin í einliðaleik karla í tennis á Ólympíuleikunum í París en ekki er víst að hann geti spilað þar vegna meiðsla.
Meiðsli í hægra hné tóku sig upp á ný þegar hann rann til á vellinum í leik sínum gegn Stefanos Tsitsipas frá Grikklandi og Djokovic þurfti verkatöflur til að halda sér gangandi en hann náði að vinna leikinn 6:3, 7:6, eftir að hafa lent 4:0 og 5:2 undir í öðru settinu.
Djokovic á að mæta Lorenzo Musetti frá Ítalíu í undanúrslitunum á morgun.
„Ég hef áhyggjur af ástandinu á hnénu og verð að láta læknateymið skoða það. Síðan kemur þetta í ljós. Ég spila ekki fyrr en klukkan sjö annað kvöld svo ég hef aðeins meiri tíma og ég reyni að vera jákvæður," sagði Djokovic við fréttamenn.
Djokovic hefur aldrei tekist að vinna ólympíugull á farsælum ferli og best náð í bronsverðlaunin í Peking árið 2008. Þetta er í fjórða sinn sem hann kemst í undanúrslit á leikunum.