Viðureign Imane Khelif og Angela Carini í hnefaleikum kvenna á Ólympíuleikunum í París hefur vakið gríðarlega athygli í dag.
Khelif var vikið úr keppni á heimsmeistaramóti í fyrra eftir fall á kynjaprófi.
Bardagi hinnar alsírsku Khelif og hinnar ítölsku Carini lauk eftir 46 sekúndur þegar sú ítalska gafst upp. Fast högg Khelif hitti hana í nefið og allur vindur var úr þeirri ítölsku sem baðst undan.
Khelif er hvorki trans kona né intersex en hún mældist með of mikið magn af karlhormónunum testósterón í líkamanum á heimsmeistaramótinu, en niðurstöðurnar urðu aðeins ljósar klukkustundum áður en Khelif átti að keppa til úrslita á mótinu.
Mörg hnefaleikasambönd eru starfandi og IBC-sambandið sem hélt heimsmeistaramótið er ekki viðurkennt af Alþjóðaólympíunefndinni. Af þeim sökum var Khelif send í annað próf fyrir Ólympíuleikana í París og það stóðst hún og hlaut keppnisrétt á mánudaginn.
Talsmaður Alþjóða ólympíunefndarinnar sagði við breska blaðið Guardian á mánudag að „allir þáttakendur í kvennaflokki falla undir regluverk mótsins. Þær eru konur í vegabréfum sínum.“
Carini neitaði að taka í hönd Khelif að loknum bardaganum og grét sáran í hringnum þegar dómarinn rétti hönd sigurvegarans á loft.
„Ég gat ekki klárað bardagann, mér var of illt í nefinu. Það fór úr skorðum eftir fyrsta höggið,“ sagði tárvot Carini við fjölmiðlamenn þegar hún steig úr hringnum.