Brasilíska fimleikakonan Rebeca Andrade lenti í öðru sæti í fjölþraut í fimleikum í gær á Ólympíuleikunum í París.
Andrade hafði betur gegn hinni bandarísku Simone Biles á tvíslá og endaði með 57,932 í einkunn en Biles vann samanlagt með 59,131 í einkunn.
„Rebeca Andrade hræðir mig mest,“ sagði Biles í þáttum um hana sem komu út fyrir leikana en Andrade sagði að hún hefði tekið því sem hrósi.
Hún og Biles lentu einnig í fyrsta og öðru sæti í fjölþraut á HM í fyrra en Andrade sagði að þetta væri líklegast í síðasta skipti sem hún keppir í fjölþraut þar sem þetta er mikið álag á fæturna og hnén en hún hefur þrisvar sinnum slitið krossband, árin 2015, 2017 og 2019.
Biles og Andrade keppa báðar í úrslitum á öllum áhöldum nema tvíslá um helgina.