Fæst orð bera minnsta ábyrgð

Hákon Þór Svavarsson í Ólympíuþorpinu í Châteauroux.
Hákon Þór Svavarsson í Ólympíuþorpinu í Châteauroux. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður finnur spennustigið aukast aðeins. Annars er ég enn nokkuð rólegur yfir þessu,“ sagði Hákon Þór Svavarsson, skotfimimaður sem er mættur á sína fyrstu Ólympíuleika, í samtali við mbl.is.

„Þetta er ekkert stress enn þá en þegar maður mætir á keppnisvöllinn finnur maður meiri spennu,“ bætti Hákon við. Hann keppir í leirdúfuskotfimi sem hófst núna um klukkan 7.30 að íslenskum tíma og keppir síðan aftur á morgun. Úrslitin fara svo fram síðdegis á morgun.

Á meðan flestar greinar á Ólympíuleikunum fara fram í París keppir Hákon í Châteauroux, 40.000 manna borg suður af París.

„Það er best í sveitinni. Ég er sveitavargur að upplagi og ég kann vel við mig hérna. Það er mjög vel að þessu staðið hérna.Þetta er mjög flott mjög víða en munurinn er kannski sá að áhorfendastæðið hérna er stærra,“ sagði Hákon.

Með Hákoni í för er gríski þjálfarinn hans Nikolaos Mavrommatis sem hefur keppt á tvennum Ólympíuleikum.

„Við kynntumst á Evrópuleikunum í Bakú árið 2015 og við smullum fljótt saman þegar við komumst að því að við erum báðir með veiðidellu.

Við höfumst hist 1-3 sinnum á ári frá 2015. Í aðdraganda Ólympíuleikanna hef ég farið fjórar ferðir til hans. Það skiptir öllu að hafa góða þjálfara. Þú ert fljótur að gera vitleysur þegar þú ert bara einn. Hann er mjög góður,“ sagði Hákon.

Hann vildi lítið gefa upp um markmið sín á fyrstu Ólympíuleikum. „Fæst orð bera minnsta ábyrgð,“ sagði Hákon og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert