Hákon klikkaði aðeins á sex skotum

Hákon Þór Svavarsson
Hákon Þór Svavarsson Kristinn Magnússon

Hákon Þór Svavarsson var í dag annar Íslendinga til að keppa í leirdúfuskotfimi á Ólympíuleikum en hann hóf keppni á fyrri degi í undankeppninni í Châteauroux í Frakklandi í dag

Íslenski skotmaðurinn keppti í þremur umferðum í dag og tók 25 skot í hverri umferð, alls 75 skot. Hann hitti alls úr 69 skotum og klikkaði aðeins á sex. Það dugaði honum í 22. sæti fyrir seinni daginn á morgun. 

Hákon byrjaði vel og hitti úr sjö fyrstu skotum sínum en áttunda skotið geigaði. Hákon bætti upp fyrir það með því að hitta úr næstu fjórtán skotum.

Hákon Þór Svavarsson
Hákon Þór Svavarsson Kristinn Magnússon

Hann klikkaði á næsta skoti, en hitti úr næstu tveimur og var þá með 23 stig af 25 mögulegum eftir 1. umferðina.

Önnur umferð var ekki ósvipuð hjá Hákoni. Hann klikkaði á fjórða og þrettánda skoti en hitti úr hinum 23 skotunum og fékk því önnur 23 stig. 

Í þriðju umferð var sama uppi á teningnum. Hákon hitti úr 23 skotum af 25.

Hákon keppir aftur á morgun og tekur þá 50 skot, en aðeins sex efstu fara í úrslit. Lítið sem ekkert má út á bregða fyrir Hákon ef hann ætlar sér í úrslitin. 

Alfreð Karl Alfreðsson var fyrir leikana í ár fyrsti og eini Íslendingurinn til að keppa í íþróttinni á Ólympíuleikunum en hann var á meðal þátttakenda i Sydney árið 2000. 

Hákon Þór Svavarsson
Hákon Þór Svavarsson Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert