Hrósaði Íslendingnum í hástert

Hákon Þór skemmir alvarlega myndatöku þjálfara síns.
Hákon Þór skemmir alvarlega myndatöku þjálfara síns. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ögn stressaður en svona er þetta í íþróttum. Þú verður að takast á við stressið,“ sagði Grikkinn Nikolaos Mavrommatis í samtali við mbl.is. Mavrommatis er þjálfari Hákons Þórs Svavarssonar sem keppir í leirdúfuskotfimi á Ólympíuleikunum í dag og hóf keppnina núna klukkan 7.30 að íslenskum tíma.

„Við erum mjög glaðir með að vera komnir á Ólympíuleikana og þetta verður skemmtileg barátta á morgun. Ég er mjög ánægður með undirbúninginn okkar,“ bætti sá gríski við.

Mavrommatis og Hákon kynntust í keppni árið 2015 og ná afar vel saman. Sá gríski hrósaði íslenska ólympíufaranum í hástert.

„Hákon er mikill baráttumaður og hann mun gefa allt sem hann á í þessa keppni. Svo sjáum við til hvað hann nær langt.

Hann er einn af mínum bestu vinum. Við erum ekki bara þjálfari og lærlingur heldur erum við mjög góðir vinir. Ef hann ætlar sér eitthvað þá tekst honum það. Hann er mjög sterkur andlega,“ sagði Marvrommatis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert