Vésteinn reiður: Hvað er að þessu fólki?

Vésteinn Hafsteinsson var vægast sagt ekki sáttur.
Vésteinn Hafsteinsson var vægast sagt ekki sáttur. Kristinn Magnússon

Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri ÍSÍ er vægast sagt ósáttur við skipulag þríþrautakeppninnar á Ólympíuleikunum í París en Guðlaug Edda Hannesdóttir var á meðal keppenda í greininni, sem fór fram í miðborginni.

Mikil óvissa ríkti um keppnina, þar sem sundhluti hennar fór fram í ánni Signu. Signa var á mörkum þess að vera of menguð til að synda í og fékk Edda ekki að vita að keppnin hennar færi fram á réttum tíma nema örfáum klukkutímum á undan.

„Ég er reynslubolti sem hefur farið á ellefu Ólympíuleika og þetta toppar listann hjá mér af rugli. Þetta er algjörlega til háborinnar skammar fyrir Ólympíuleikana, fyrir ólympíusambandið og alþjóðlega þríþrautasambandið.

Guðlaug Edda Hannesdóttir í keppninni í þríþraut.
Guðlaug Edda Hannesdóttir í keppninni í þríþraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég skil ekki hvernig er hægt að koma svona fram við íþróttafólkið. Svo var verið að íhuga að leggja niður eina af greinunum á sjálfum Ólympíuleikunum þar sem fólk er búið að vera að undirbúa sig í mörg ár.

Svo kom þetta endanlega í ljós klukkan 4 í nótt þegar mótið byrjar klukkan 8. Þetta er efst á rugllistanum. Ég hef aldrei upplifað aðra eins þvælu. Ég sem fyrrverandi þjálfari og núverandi afreksstjóri spyr, hvað eiginlega er að þessu fólki? Ekki bara þríþrautasambandinu heldur alþjóðlegu ólympíunefndinni,“ sagði Vésteinn með eldmóðinn á sínum stað.

Guðlaug Edda Hannesdóttir synti í Signu.
Guðlaug Edda Hannesdóttir synti í Signu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann hélt svo áfram:

„Það er svæði hérna í Poissy, 30 kílómetrum frá miðborginni, þar sem er keppt á heimsmeistaramótum. Það datt engum í hug að fara þangað því það var ekkert plan b. Þetta er gjörsamlega það versta sem ég man eftir og ég hef fengið að upplifa ýmislegt. Það er stórt spurningamerki í höfðinu á mér sem skilur ekki hvað er að gerast í höfðinu á þessu fólki.

Hvernig getur alþjóðlega þríþrautasambandið samþykkt þetta og samþykkt að láta vita um miða nótt hvort það sé keppni eftir nokkra tíma? Þetta er til háborinnar skammar,“ sagði Vésteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert