Alls konar tilþrif hjá NBA-stjörnunum

Anthony Edwards treður boltanum í körfu Púertó Ríkó með tilþrifum …
Anthony Edwards treður boltanum í körfu Púertó Ríkó með tilþrifum í leiknum í dag. AFP/Sameer Al-Doumy

Bandaríska karlalandsliðið í körfuknattleik lék við hvern sinn fingur í dag þegar það vann auðveldan sigur á Púertó Ríkó í lokaumferð riðlakeppni Ólympíuleikanna í París í dag, 104:83.

Úrslitin voru ráðin löngu fyrir leikslok, staðan var 64:45 í hálfleik, og bandarísku stjörnurnar nýttu tækifærið á lokakaflanum til að sýna alls konar tilþrif, sum misjafnlega vel heppnuð.

Bandaríkin unnu riðilinn með 6 stig, Serbía og Suður-Súdan eru með 2 stig og mætast í úrslitaleik um áframhaldið í kvöld en Púertó Ríkó er á heimleið án stiga.

Anthony Edwards skoraði 26 stig fyrir bandaríska liðið, Jayson Tatum 12, Kevin Durant 11, Joel Embiid 11, LeBron James 10 og Anthony Davis 10 en aðrir minna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert