Biles bætti við gullverðlaunum

Simone Biles stekkur í Bercy-höllinni í París í dag.
Simone Biles stekkur í Bercy-höllinni í París í dag. AFP/Loic Venance

Simone Biles frá Bandaríkjunum bætti enn gullverðlaunum í safn sitt á Ólympíuleikunum í París í dag þegar hún sigraði í úrslitunum í stökki í Bercy-höllinni.

Þetta eru hennar sjöundu gullverðlaun á þrennum Ólympíuleikum og þriðja gullið á þessum leikum.

Biles framkvæmdi stökkin nánast óaðfinnanlega og fékk 15,700 stig fyrir það fyrra (Biles II, hét áður Yurchenko double pike) og 14,900 fyrir það seinna (Cheng), eða samtals 15,300 sem meðalskor.

Rebeca Andrade frá Brasilíu átti líka glæsileg stökk og fékk 14,966 stig sem tryggðu henni silfurverðlaunin.

Bronsið fékk Jade Carey frá Bandaríkjunum með 14,216 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert