Önnur smáþjóð í Karabíska hafinu vann sín fyrstu ólympíuverðlaun í kvöld þegar Thea LaFond frá Dóminiku sigraði í þrístökki kvenna á Ólympíuleikunum í París.
Þetta gerðist skömmu eftir að Julien Alfred frá Sankti Lúsíu varð ólympíumeistari í 100 metra hlaupi kvenna.
LaFond stökk 15,02 metra, setti nýtt landsmet þjóðar sinnar, og stökk 15 sentimetrum lengra en Shanieka Ricketts frá Jamaíku sem fékk silfrið með 14,87 metra. Bronsið fékk síðan Jasmine Moore frá Bandaríkjunum sem stökk 14,67 metra.
Dóminíka er meira en helmingi fámennari þjóð en Sankti Lúsía því þar búa aðeins 72 þúsund manns og eyjan er aðeins 750 ferkílómetrar að stærð.