Fimm hlupu undir 10 sekúndum

Fred Kerley, fyrir miðju, náði besta tímanum í morgun.
Fred Kerley, fyrir miðju, náði besta tímanum í morgun. AFP/Jewel Samad

Fimm hlauparar hlupu á skemmri tíma en 10 sekúndum í undanrásum 100 metra hlaups karla á Ólympíuleikunum í París í morgun.

Þeir fengu allir tímana 9,97 til 9,99 sekúndur og þeim bestu náðu Fred Kerley og Kenneth Bednarek frá Bandaríkjunum, sem báðir unnu sína riðla á 9,97 sekúndum.

Emmanuel Eseme frá Kamerún og Louie Hinchliffe frá Bretlandi hlupu á 9,98 og Oblique Seville frá Jamaíku kom í mark á 9,99 sekúndum.

Kishane Thompson frá Jamaíku, sem á besta tíma ársins í heiminum, 9,77 sekúndur, hljóp á 10 sekúndum sléttum.

Ferdinand Omanyala frá Kenya, sem hefur hlaupið á 9,79 sekúndum í ár, fór áfram á 10,08 sekúndum og Noah Lyles frá Bandaríkjunum, sem er þrefaldur heimsmeistari og sá þriðji besti í ár, 9,81 sekúndur, hljóp á 10,04 sekúndum.

Ólympíumeistarinn frá 2021, Lamont Jacobs frá Ítalíu, fór áfram á 10,05 sekúndum en hann á best 9,92 sekúndur á þessu ári. Í Tókýó vann hann á 9,80 sekúndum en Kerley varð annar á 9,84.

Andre de Grasse frá Kanada, sem fékk bronsið í Tókýó, komst áfram á 10,07 sekúndum.

Alls komast 24 hlauparar áfram í undanúrslitin og sá síðasti inn hljóp á 10,16 sekúndum. 

Heimsmet Usains Bolts frá árinu 2009 er 9,58 sekúndur og ólympíumet hans frá 2012 er 9,63 sekúndur.

Undanúrslitin í 100 metra hlaupinu fara fram annað kvöld klukkan 18.05 og úrslitahlaupið síðar um kvöldið, eða klukkan 19.50.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert