Milljón hugsanir á hverri sekúndu

Hákon Þór Svavarsson í keppninni í dag.
Hákon Þór Svavarsson í keppninni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög sáttur. Þetta var mjög skemmtilegt,“ sagði Hákon Þór Svavarsson við mbl.is eftir að hann lauk leik í leirdúfuskotfimi á sínum fyrstu Ólympíuleikum í dag. Hákon varð í 23. sæti með 116 stig.

„Ég var miklu minna stressaður en ég hélt ég yrði. Ég miklaði þetta fullt fyrir mér. Ég var samt aldrei rólegur á meðan ég var að skjóta.

Það eru alls konar tilfinningar í gangi og milljón hugsanir í gangi í hausnum á mér á hverri sekúndu en svo snýst þetta um að koma þeim í burtu,“ bætti Hákon við.

Hann gerði sér lítið fyrir og fékk fullt hús stiga, 25 stig, í lokaumferðinni. „Það varð eiginlega að gerast. Þetta var gamla sveitamannaþrjóskan sem kom sterk inn.“

Það hefur verið nóg að gera hjá Hákoni undanfarnar vikur og mánuði. Strangar æfingar, mörg keppnisferðalög og svo sjálfir Ólympíuleikarnir.

„Það verður rosalega gott að koma heim. Ég hlakka til að standa úti í rigningu. Ég er kominn nóg af sólinni,“ sagði hann léttur.

Hákon fékk mikinn stuðning frá fjölmenni sem fylgdu honum til Frakklands. „Ísland er best í heimi. Ég er mjög heppinn að hafa mikið af góðu fólki í kringum mig. Það skiptir mjög miklu máli,“ sagði Hákon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert