Í andlegum og líkamlegum rússíbana

Mikið hefur gengið á hjá Guðlaugu Eddu Hannesdóttur.
Mikið hefur gengið á hjá Guðlaugu Eddu Hannesdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri ÍSÍ var nokkuð sáttur við Guðlaugu Eddu Hannesdóttur sem keppti í þríþraut á sínum fyrstu Ólympíuleikum á miðvikudag. Edda er nýkomin til baka eftir slæm meiðsli og því ekki í sínu allra besta formi.

Edda endaði í 51. og neðsta sæti af þeim keppendum sem kláruðu þríþrautina eftir að hún datt illa á hjólinu í miðri keppni. Þrátt fyrir það kláraði Edda hjólið og síðan hlaupið sem tók við í kjölfarið.

„Guðlaug Edda var óskrifað blað. Hún er búin að vera í svakalegum málum. Hún komst á Ólympíuleikana og hún kláraði hlaupið. Ég er ánægðastur með það,“ sagði Vésteinn er hann ræddi við mbl.is eftir keppnina í þríþraut.

Guðlaug Edda Hannesdóttir
Guðlaug Edda Hannesdóttir Kristinn Magnússon

Vésteinn var lengi þjálfari í allra fremstu röð í kringlukasti og hefur hann fagnað gullmedalíum á Ólympíuleikunum með lærisveinum sínum. Hann er því mjög kröfuharður. 

„Hún var svo óheppin og datt, en það voru margir fleiri sem duttu. Þar fór móðurinn úr henni þegar hún datt og fékk skrámur. Ég er ekki ánægður með það, því ég hefði viljað sjá hana fara betur af stað á hjólinu eftir fallið og svo hlaupa betur. Það er óþarfi að missa móðinn ef þetta er ekkert alvarlegt. Hún var 38. sæti þegar hún datt en endar í 51. sæti,“ sagði hann.

Vésteinn er spenntur fyrir framhaldinu hjá Eddu, en hún hefur þurft að ganga í gegnum ýmislegt undanfarin ár.

Vésteinn Hafsteinsson
Vésteinn Hafsteinsson Kristinn Magnússon

„Ég er ánægður með að hún er komin til baka eftir uppskurðinn. Fyrir ári síðan var hún ekki á leiðinni á Ólympíuleikana. Ég er jákvæður maður og horfi á það jákvæða. Hún er komin til baka og ég sé hana geta komið sterka til leiks í Los Angeles 2028.

Hún er búinn að vera í andlegum og líkamlegum rússíbana síðasta árið vegna meiðsla og óvissu. Undirbúningurinn hér var ekki eins og hún vildi og hún er ekki komin almennilega til baka. Sólin kemur upp á morgun hjá henni og brosir framan í okkur. Þá horfum við fram á við,“ sagði Vésteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert