Bretinn bætti um betur og krækti í gull

Keely Hodgkinson fagnar fyrsta ólympíugullinu á ferlinum.
Keely Hodgkinson fagnar fyrsta ólympíugullinu á ferlinum. AFP/Jewel Samad

Hin breska Keely Hodgkinson vann 800 metra hlaup kvenna með öruggum hætti á Ólympíuleikunum í París í kvöld og tryggði sér um leið sitt fyrsta ólympíugull.

Hodgkinson, sem er aðeins 22 ára gömul, kom fyrst í mark á 1:56,72 mínútum, nokkru á undan hinni eþíópísku Tsige Duguma sem hafnaði í öðru sæti á 1:57,15 mínútum, sem er hennar besti árangur.

Duguma tryggði sér þannig silfurverðlaun.

Hodgkinson vann einmitt til silfurverðlauna í greininni á leikunum í Tókýó árið 2021 og bætti því um betur frá því síðast.

Mary Moraa frá Keníu hafnaði í þriðja sæti og vann til bronsverðlauna með því að hlaupa á 1:57,42 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert