Biles: „Skrítin og vandræðaleg“ úrslit á slá

Simone Biles datt í úrslitum á slá.
Simone Biles datt í úrslitum á slá. AFP/Lionel Bonaventure

Simone Biles var ekki upp á sitt besta í úrslitum á slá í fimleikum á Ólympíuleikunum í París í gær.

Biles datt af slánni í úrslitum og endaði í fimmta sæti með 13,100 í einkunn sem er töluvert minna en hún fékk á slá í úrslitum í fjölþraut, 14,566.

„Vanalega erum við með tónlist eða eitthvað annað í gangi og okkur gengur betur þegar það eru læti því þá er þetta meira eins og æfing.

Í dag heyrði maður í símum hringja og hljóð í myndavélum og þú ert að reyna að einbeita þér, svo fer fólk að hvetja en þá fer fólk að sussa hærra en það ætti í raun að sussa á fólkið sem er að sussa því það heyrist meira í þeim, ég veit ekki þetta var bara skrítið og vandræðalegt.

Við höfum áður beðið um að hafa tónlist en ég veit ekki hvað gerðist, þetta er ekki uppáhaldið okkar og okkur líkar ekki vel við þetta. Þetta voru furðuleg úrslit á slá.

Það er heiður að keppa á móti þessum stelpum, ég var ekki upp á mitt besta en hver sem vann til verðlauna gerði það og það er það spennandi við fimleika því maður veit aldrei hvað gerist.

Ég er ekki mjög leið yfir því hvernig mér gekk á leikunum, ég er glöð og stolt og ánægð að þetta er búið, þetta stress,“ sagði Biles á blaðamannafundi eftir leikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert