Þá biðjum við fyrir góðu veðri

Hákon Þór Svavarsson og Nikolaos Mavrommatis eru góðir félagar.
Hákon Þór Svavarsson og Nikolaos Mavrommatis eru góðir félagar. Kristinn Magnússon

Grikkinn Nikolaos Mavrommatis hefur þjálfað skotfimimanninn Hákon Þór Svavarsson að undanförnu en þeir hafa þekkst í tæpan áratug. Hákon náði flottum árangri í leirdúfuskotfimi undir handleiðslu þess gríska.

„Við hittumst fyrst árið 2015 og við höfum lagt mikið á okkur saman og sérstaklega eftir að við komumst að því að Hákon væri á leiðinni á Ólympíuleikana,“ sagði Marvrommatis við mbl.is.

„ÍSÍ og Skotsamband Íslands hefur gert mikið til að hjálpa okkur síðan í apríl. Hann kemur reglulega til Grikklands þar sem veðrið er betra og svipað því sem það er í Frakklandi,“ bætti hann við.

Kristinn Magnússon

Stærstan hluta árs er Hákon í fjarþjálfun hjá Mavrommatis en þeir reyna að hittast eins oft og möguleiki er á.

„Það er ekki auðvelt þótt við hittumst stundum á Íslandi og í Grikklandi. Það er auðveldara þegar Hákon kemur til mín vegna veðursins. Þegar ég kem til Íslands biðjum við fyrir góðu veðri. Það er erfiðara að skjóta þegar það er hvasst og/eða kalt,“ sagði hann.

Grikkinn hefur sjálfur náð langt í íþróttinni og m.a. keppt á tveimur Ólympíuleikum og unnið til verðlauna á stórmótum. Hann varð í níunda sæti á Ólympíuleikunum í London og 20. sæti í Tókýó.

„Ég var í London 2012 og Tókýó 2021. Ég hef unnið medalíur, þar á meðal gull, á HM og EM. Ég hef unnið til verðlauna í einstaklings- og liðsgreinum,“ sagði sá gríski.

Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert