Liðsmaður ástralska hokkíliðsins á Ólympíuleikunum í París hefur verið handtekinn fyrir að reyna að kaupa kókaín í frönsku höfuðborginni.
Nafn þess handtekna hefur ekki verið gert opinbert en ástralska ólympíunefndin sendi frá sér yfirlýsingu nú í morgun um handtöku leikmannsins.
Karla- og kvennalið Ástralíu var þegar fallið úr leik eftir töp í átta liða úrslitum í hokkíkeppninni í París.
Blaðamaðurinn Jean-Baptiste Marty greindi fyrstur frá handtökunni á samfélagsmiðlinum X og sagði að atvikið hefði átt sér stað í níunda hverfi Parísar.