Lærisveinar Alfreðs lögðu gestgjafana

Renars Uscins skoraði 14 mörk fyrir Þýskaland.
Renars Uscins skoraði 14 mörk fyrir Þýskaland. AFP/Thomas Coex

Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, vann frækinn sigur á gestgjöfum Frakklands þegar liðin áttust við í æsispennandi framlengdum leik í 8-liða úrslitum handknattleiks karla á Ólympíuleikunum í París í dag. Lauk leiknum með 35:34-sigri Þjóðverja.

Lærisveinar Alfreðs eru þar með komnir í undanúrslit og mæta þar Spánverjum á meðan gestgjafarnir, ríkjandi Ólympíu- og Evrópumeistarar, hafa lokið þátttöku.

Þýskaland vann A-riðil mótsins á meðan Frakkland hafnaði í fjórða sæti B-riðils eftir að hafa verið langt frá sínu besta.

Þegar meira var undir sýndu heimamenn hins vegar sitt rétta andlit.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn í dag betur og komust í 4:2 en eftir það tóku Frakkar leikinn yfir og komust mest fimm mörkum yfir.

Var staðan 14:17, Frakklandi í vil, í hálfleik.

Alfreð Gíslason hafði ástæðu til að fagna í dag.
Alfreð Gíslason hafði ástæðu til að fagna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frakkar komust sex mörkum yfir

Í upphafi síðari hálfleiks bættu Frakkar enn frekar í og komust sex mörkum yfir, 20:14, með því að skora fyrstu þrjú mörk hálfleiksins.

Þjóðverjar unnu sig í kjölfarið betur og betur inn í leikinn og voru búnir að jafna metin í 25:25 þegar skammt var eftir.

Þýskaland komst svo yfir, 26:25, en í kjölfarið náði Frakkland vopnum sínum á ný og virtist eiga sigurinn vísan þegar sex sekúndur lifðu leiks og Frakkar héldu í sókn einu marki yfir, 29:28.

Uscins reyndist hetjan

Heimamenn tóku miðju þar sem Dika Mem var lengi að losa sig við boltann, henti honum beint í fang Þjóðverja og Renars Uscins jafnaði metin á lokamínútunni.

Því þurfti að grípa til framlengingar. Í henni var eins og mátti vænta allt í járnum.

Fór svo að lokum að Þýskaland vann með einu marki en Uscins skoraði sigurmarkið þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.

Uscins átti ótrúlegan leik í liði Þýskalands en hann skoraði 14 mörk.

Mem var markahæstur hjá Frökkum með tíu mörk. Hugo Descat bætti við átta mörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert