Spánn ólympíumeistari eftir lygilegan leik

Spánverjar fagna eftir að ólympíumeistaratitillinn var í höfn.
Spánverjar fagna eftir að ólympíumeistaratitillinn var í höfn. AFP/Patrícia de Melo Moreira

Spánn tryggði sér ólympíugull í knattspyrnu karla með því að leggja gestgjafa Frakklands að velli, 5:3, eftir bráðfjörugan úrslitaleik sem fór í framlengingu í kvöld.

Fjörið byrjaði snemma leiks. Á 11. mínútu hafnaði skot Frakkans Enzo Millot af hægri kantinumí netinu eftir mistök Arnau Tenas í marki Spánverja, sem varði boltann inn.

Spánverjar létu markið ekki mikið á sig fá og jöfnuðu metin aðeins sjö mínútum síðar. Þar var að verki Fermín López sem skoraði með hnitmiðuðu skoti úr vítateignum eftir góða sendingu Álex Baena.

López var aftur að verki sjö mínútum síðar, á 25. mínútu. Hann kom boltanum þá í netið af örstuttu færi eftir að Guillaume Restes í marki Frakka hafði varið skot Abel Ruiz af svipað stuttu færi.

Ekki leið á löngu þar til staðan var orðin 3:1. Baena skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu á 28. mínútu þegar hann setti boltann yfir varnarvegginn og þannig stóðu leikar í leikhléi.

Endurkoma Frakka

Frökkum tókst að minnka muninn þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Aukaspyrna Michael Olise af hægri kantinum fór þá af samherja hans Magnes Akliouche og í netið og staðan orðin 3:2.

Í uppbótartíma fengu Frakkar svo dæmda vítaspyrnu eftir athugun í VAR. Juan Miranda hélt þá leikmanni Frakka innan vítateigs þegar hornspyrna stefndi til hans og því ekki annað hægt en að dæma.

Jean-Philippe Mateta steig á vítapunktinn, skoraði af miklu öryggi og tryggði Frökkum þannig framlengingu.

Varamaðurinn tryggði sigurinn

Í henni reyndust Spánverjar sterkari.

Á 100. mínútu kom varamaðurinn Sergio Camello Spánverjum yfir á ný þegar hann vippaði boltanum glæsilega yfir Restes og í netið.

Í uppbótartíma framlengingarinnar slapp Camello svo einn í gegn og skoraði aftur með því að lyfta boltanum yfir Restes.

Staðan orðin 5:3 og reyndust það lokatölur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert