Danir tóku bronsið

Mie Höjlund var markahæst í liði Dana.
Mie Höjlund var markahæst í liði Dana. AFP/Thomas Coex

Danska kvennalandsliðið í handbolta lagði Svíþjóð, 30:25, í leiknum um bronsið á Ólympíuleikunum í París í morgun.  

Þetta er í fyrsta skipti í 20 ár síðan Danir vinna til verðlauna í kvennaflokki í handbolta en liðið vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004.  

Þetta er annar bronsleikurinn sem Svíþjóð tapar í röð en liðið tapaði gegn Noregi á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir þremur árum.  

Mie Höjlund var markahæst í liði Dana en hún skoraði fimm mörk og lagði upp þrjú. Í liði Svía var Nathalie Hagman markahæst með fimm mörk. 

Sandra Toft, markvörður Dana, átti stórkostlegan leik en hún varði 16 skot. 

Úrslitaleikurinn í kvennaflokki í handbolta fer fram í dag klukkan 13. Þar mætast gestgjafarnir í Frakklandi og Noregur, sem Þórir Hergeirsson stýrir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert