Sautjánda ólympíugull bandaríska liðsins

Steph Curry og Kevin Durant fagna í kvöld.
Steph Curry og Kevin Durant fagna í kvöld. AFP/Aris Messinis

Stjörnum prýtt lið Bandaríkjanna er Ólympíumeistari karla í körfubolta fimmtu leikana í röð og 17. skipti alls eftir sigur á heimamönnum í Frakklandi, 98:87, í úrslitum í Bercy-höllinni í París í kvöld.

Sömu þjóðir mættust í úrslitum í Tókýó fyrir þremur árum og þá unnu Bandaríkin einnig, 87:82.

Frakkar stóðu vel í Bandaríkjamönnum í fyrsta leikhluta, en þeir bandarísku voru þó skrefinu á undan nánast allan leikhlutann. Að lokum munaði fimm stigum eftir leikhlutann, 20:15.

Franska liðið byrjaði mun betur í öðrum leikhluta og komst það yfir, 25:24, þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

LeBron James sækir að frönsku körfunni í kvöld. Guerschon Yabusele …
LeBron James sækir að frönsku körfunni í kvöld. Guerschon Yabusele er til varnar. AFP/Aris Messinis

Þá tóku Bandaríkjamenn við sér, náðu forystunni á nýjan leik og héldu henni nokkuð örugglega út fyrri hálfleikinn, en staðan eftir hann var 49:41.

Devin Booker var stigahæstur hjá Bandaríkjunum í fyrri hálfleik með 13 stig. LeBron James kom næstur með sjö. Guerschon Yabusele skoraði 15 fyrir Frakka og Victor Wembanyama 13.

Bandaríkin héldu áfram að vera með völdin í seinni hálfleik og þriggja stiga karfa frá Steph Curry kom muninum í 14 stig þegar þriðji leikhluti var tæplega hálfnaður, 61:47.

Victor Wembanyama í baráttunni.
Victor Wembanyama í baráttunni. AFP/Damien Meyer

Sem fyrr gáfust Frakkar ekki upp og með glæsilegum endaspretti í þriðja leikhluta tókst þeim að gera leikinn spennandi fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, en staðan fyrir hann var 72:66.

Frökkum tókst að minnka muninn í þrjú stig þegar skammt var eftir, 82:79, en Bandaríkjamenn voru sterkari í lokin og tryggðu sér enn eitt ólympíugullið.

Steph Curry var sterkur á lokakaflanum og endaði stigahæstur í bandaríska liðinu með 24 stig. Kevin Durant gerði 15 og LeBron James 14. Wembanyama endaði stigahæstur hjá Frökkum með 26 stig. Yabusele gerði 20. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka