Serbía hafði betur gegn núverandi heimsmeisturunum í Þýskalandi, 93:83, í bronsleiknum í körfuknattleik karla á Ólympíuleikunum í París í dag.
Serbar byrjuðu viðureignina betur og eftir fyrsta leikhluta var staðan 30:21, Serbum í vil. Annar leikhluti var töluvert jafnari og leiddu Serbar í hálfleik, 46:38.
Serbía gerði vel í síðari hálfleik að halda í þægilega forystu og endaði leikurinn með 93:83 sigri Serbíu.
Nikola Jokic fór á kostum í liði Serbíu með 19 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar. Vasilije Micic skoraði einnig 19 stig fyrir serbneska landsliðið.
Í þýska liðinu var það Franz Wagner sem var stigahæstur með 18 stig en bróðir hans Moritz Wagner var næst stigahæstur með 16 stig.