Eyði næstu fjórum árum í að fá að gera þetta aftur

Erna Sóley Gunnarsdóttir öskrar á eftir kúlunni í París.
Erna Sóley Gunnarsdóttir öskrar á eftir kúlunni í París. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er rosalega sátt með mína frammistöðu,“ sagði Erna Sóley Gunnarsdóttir við mbl.is þegar hún hafði fengið smá tíma til að melta sína fyrstu Ólympíuleika, en hún hafnaði í 20. sæti í kúluvarpi í París.

„Ég var aðeins að hugsa eftir keppnina að ég hefði getað gert betur en ég er rosalega stolt af því að hafa náð þremur flottum köstum, hafa haldið ró minni og komið út úr Ólympíuleikunum og náð að hafa gaman að þessu. Þetta var það gaman að ég ætla að eyða næstu fjórum árum í að ná að gera þetta aftur,“ sagði hún.

„Það var rosalega mikill spenningur. Ég var staðráðin í að halda mér rólegri og hugsa svo þegar ég mætti á staðinn að það væri geggjað að vera þarna. Ég er mjög ánægð hvernig ég var andlega. Ég var spennt fyrir því að keppa og tilbúin í þetta. Það var ekki of mikið stress, eins og var hjá mörgum.

Ég hef lært mikið á því að keppa á stórmóti áður. Maður þarf ekki að gíra sig upp í keppnir á stórmótum, eins og er stundum heima. Gírinn kemur til manns þegar maður labbar inn á völlinn, með öllum þessum áhorfendum. Þá reyni ég að halda mér rólegri,“ bætti hún við.

Í keppninni var Erna um 40 sentímetrum frá sinni bestu frammistöðu, en það á sér skýringar.

„Það er rosalega erfitt að ná því í undanúrslitakeppni. Þú ert mjög sjaldan að sjá bætingar á svona móti. Það sem skiptir meira máli er að ná minni meðallengd upp. Ég vil geta farið auðveldlega yfir þessa 18,20 metra sem þarf til að fara í úrslit. Ég þarf að bæta mig því ég er ekki komin á þann stað enn þá,“ sagði Erna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert