Ítalska transkonan Valentina Petrillo verður fyrsti trans íþróttamaðurinn sem tekur þátt á Paralympics, sem hefjast í París í lok mánaðarins.
Petrillo er fimmtug og gekkst undir kynleiðréttingu fyrir fimm árum.
Hún keppir í T12 flokki sjónskertra í hlaupi og sérhæfir sig í 200 og 400 metrunum.
Í samtali við BBC Sport kvaðst Petrillo hæstánægð með þátttökuréttinn, sem væri „mikilvægt tákn um inngildingu.“
Ekki eru allir á eitt sáttir við þátttöku Petrillo þar sem þeim þykir það ósanngjarnt að kona sem hafi fæðst karlkyns fái að keppa gegn konum.
Þeirra á meðal er Mariuccia Quilleri, lögfræðingur og íþróttakona sem hefur tekið að sér mál fjölda íþróttafólks sem setur sig upp á móti þátttöku Petrillos í hlaupum kvenna.
„Inngilding hafði betur gegn sanngirni. Það er ekki mikið meira sem við getum gert,“ hefur BBC Sport eftir Quilleri.