Hljóp megnið af maraþoninu fótbrotin

Rose Harvey (t.h.).
Rose Harvey (t.h.). AFP/Henry Nicholls

Breska hlaupakonan Rose Harvey hefur greint frá því að hún lauk keppni í maraþonhlaupi Ólympíuleikanna í París þrátt fyrir að vera fótbrotin.

Harvey hafnaði í 78. sæti eftir að hafa komið í mark á 2:51:03 klukkustundum. Á Instagram-síðu sinni greindi hún frá því að eftir að hafa hlaupið fyrstu 3,5 kílómetrana af 42 kílómetra vegalengdinni hafi Harvey fundið fyrir miklum sársauka.

„Næstu 24 mílur [38,6 kílómetrar] voru sársaukafull barátta. Það kom á daginn að ég var með álagsbrot í lærleggnum mínum.

Í öllum öðrum hlaupum hefði ég hætt keppni og það voru svo mörg augnablik sem ég hélt að ég gæti ekki tekið annað skref. Hlaup niður brekkur voru hreinasta helvíti.

En þrátt fyrir að flest markmið mín hafi verið úr sögunni var enn smá hluti af ólympíudraumnum mínum til staðar, sem var að ljúka maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum,“ skrifaði Harvey meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert