Vann þrenn verðlaun í París en skiptir um landslið

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP/Tim De Waele

Hjólreiðakappinn Matt Richardson hefur tekið ákvörðun um að hjóla framvegis fyrir landslið Stóra-Bretlands, tæpum tveimur vikum eftir að hafa unnið til þrennra verðlauna með liði Ástralíu á Ólympíuleikunum í París.

Richardson fæddist á Englandi en flutti ungur að árum til Ástralíu og hefur verið með tvöfalt ríkisfang undanfarin 16 ár.

Alþjóðahjólreiðasambandið hefur samþykkt beiðni hans um að skipta um ríkisfang og getur Richardson því byrjað að æfa og keppa með liði Stóra-Bretlands.

Hann er 25 ára gamall og vann til tvennra silfurverðlauna og einna bronsverðlauna á leikunum í París í sumar með landsliði Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert