Helmingslíkur á að komast á verðlaunapall

Thelma Björg Björnsdóttir.
Thelma Björg Björnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir er á leið á sína þriðju Paralympics-leika sem verða settir í París þann 28. ágúst næstkomandi.

„Ég er spennt. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt,“ sagði Thelma Björg í samtali við mbl.is er hún var spurð hvernig það legðist í hana að vera á leið á sína þriðju leika í röð.

Thelma Björg keppir í 100 metra bringusundi í S6-flokki hreyfihamlaðra og er einn af fimm íslenskum keppendum sem fara til Parísar.

Aðspurð kvaðst hún vera á betri stað en á leikunum í Tókýó í Japan fyrir þremur árum þegar hún náði sínum besta árangri til þessa; áttunda sæti í 100 metra bringusundi.

Æfir sex til sjö sinnum í viku

Hún tók einnig þátt á Paralympics í Ríó de Janeiro í Brasilíu og keppti þá í alls fjórum greinum.

Thelma Björg er búin að undirbúa sig og æfa afar vel fyrir leikana í París.

„Ég æfi svona sex til sjö sinnum í viku,“ útskýrði hún.

Thelma Björg hefur sett sér markmið á leikunum í ár þar sem hún vill fylgja eftir góðum árangri í Tókýó.

„Já, það er bara að reyna að komast í úrslit og vera í topp átta,“ sagði hún og bætti við að hana dreymi um að komast á verðlaunapall.

Íslenski hópurinn sem keppir í París. Efri röð: Már Gunnarsson, …
Íslenski hópurinn sem keppir í París. Efri röð: Már Gunnarsson, Ingeborg Eide Garðarsdóttir, Róbert Ísak Jónsson. Neðri röð: Thelma Björg Björnsdóttir, Sonja Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vann silfur á HM

Thelma Björg fylgdi eftir góðum árangri í Tókýó með því að vinna til silfurverðlauna í sinni sterkustu grein, 100 metra bringusundi, á HM 2022. Var hún í kjölfarið valin íþróttakona ÍF sama ár.

Spurð hvernig hún mæti möguleikana á því að komast á verðlaunapall í París sagðist Thelma Björg telja það vera um helmingslíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert