Sænsk vonarstjarna í þriggja mánaða bann

Tara Babulfath rífst við dómarann, sem varð til þess að …
Tara Babulfath rífst við dómarann, sem varð til þess að hún fékk þriggja mánaða bann. AFP/Jack Guez

Hin 18 ára gamla Tara Babulfath, sem náði í bronsverðlaun í -48 kg flokki í júdó á Ólympíuleikunum í París, er komin í þriggja mánaða bann vegna framkomu sinnar á leikunum í frönsku höfuðborginni.

Babulfath, sem er frá Svíþjóð, fékk þrjár aðvaranir í undanúrslitaviðureign sinni, með þeim afleiðingum að hún var dæmd úr leik. Var hún allt annað en sátt við ákvörðunina og reifst lengi við dómarann.

Alþjóða júdósambandið var lítt hrifið af mótmælum Babulfath og úrskurðaði hana í þriggja mánaða bann frá íþróttinni. Gildir bannið til 31. október.

„Það er erfitt að sætta sig við þetta bann því júdó er lífið mitt,“ skrifaði hún m.a. á Instagram.

Kristiina Pekkola forseti sænska júdósambandsins sagðist þakklát að bannið hafi verið þrír mánuðir en ekki sex þegar hún ræddi við SVT í heimalandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert