Missti af jarðarför föður síns

Emil Nielsen er einn besti markvörður heims í dag.
Emil Nielsen er einn besti markvörður heims í dag. AFP/Sameer Al-Doumy

Handknattleiksmarkvörðurinn danski Emil Nielsen missti föður sinn á meðan á Ólympíuleikunum í París stóð. Danska liðið varð ólympíumeistari eftir sigur á því þýska í úrslitum.

Nielsen, sem er einn besti markvörður heims um þessar mundir, ákvað að greina ekki frá föðurmissinum opinberlega á meðan á leikunum stóð.

„Ég var að upplifa draum, á stærsta mótinu af þeim öllum, en á sama tíma að glíma við martröð. Ég reyndi að fela tilfinningarnar eins og ég gat en stundum gat ég ekki annað en grátið,“ sagði Nielsen í samtali við Jyllands-Posten.

Hann ákvað, eftir samtöl við kærustu, fjölskyldu og danska liðið, að vera áfram í París svo lengi sem hann gat enn staðið vaktina vel, sem hann gerði sannarlega.

„Ég var búinn að ákveða að ég færi heim ef ég myndi ekki standa mig gegn Argentínu. Ég varði 16 skot í þeim leik og ákvað að vera áfram,“ sagði hann.

Faðir hans var jarðaður sama dag og Danmörk mætti Slóveníu í undanúrslitum og missti Nielsen því af jarðarför föður síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka