Dó síðustu metrana en komst í úrslit

Róbert Ísak Jónsson.
Róbert Ísak Jónsson. Ljósmynd/ÍF

„Tilfinningin er góð. Ég dó þarna síðustu 15 metrana en ég komst í úrslit. Það var markmiðið,“ sagði ánægður Róbert Ísak Jónsson eftir að hann tryggði sér sæti í átta manna úrslitum í 100 metra flugsundi í S14-flokki þroskahamlaðra á Paralympics-leikunum í París í morgun.

Róbert Ísak synti á 58,35 sekúndum sem dugði honum til að hafna í áttunda sæti í undanrásum og komast þannig í úrslit í greininni aðra leikana í röð. Hafnaði hann í sjötta sæti þar og setti Íslandsmet sitt, 58,06 sekúndur.

Róbert Ísak byrjaði af miklum krafti í sundinu í morgun en dró aðeins af honum undir lokin.

„Ég byrjaði hratt, ég byrjaði vel en endirinn var ekki alveg eins og ég ætlaði mér. Ég ætla að reyna að laga hann núna í úrslitunum,“ sagði Róbert Ísak er mbl.is náði tali af honum eftir sundið.

Ætti að synda á 57,50 sekúndum

Í 100 metra flugsundi er samkeppnin mikil og beið Róberts Ísaks erfitt verkefni þar sem hann var með 13. besta tímann af 14 keppendum fyrir undanrásirnar.

„Ég pæli ekkert í því. Ég ræð ekki hvað aðrir gera, ég ræð bara hvað ég geri. Það sem ég ætlaði að gera var að synda hratt og komast í úrslit. Það tókst,“ sagði hann ákveðinn.

Nú þegar þú ert kominn í úrslit ertu með eitthvað ákveðið markmið í þeim?

„Nei, það er bara að bæta mig,“ sagði Róbert Ísak.

Spurður hvort hann væri að horfa til þess að bæta eigið Íslandsmet í úrslitunum sagði Róbert Ísak að lokum:

„Samkvæmt tímatökum á æfingum ætti ég að vera að synda á svona 57,50 sekúndum. Ég er að vonast eftir því eða betra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert