Halla forseti: Ég ætla að vera með læti

Halla Tómasdóttir forseti Íslands og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, hittu …
Halla Tómasdóttir forseti Íslands og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, hittu Emmanuel Macron Frakklandsforseta og eiginkonu hans Brigitte Macron fyrir setningarathöfnin Paralympics í gær. AFP/Stephane de Sakutin

Fyrsta opinbera heimsókn Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á erlendri grundu er í París í Frakklandi í tilefni Paralympics-leikanna, þar sem Ísland á fimm keppendur.

„Þetta er fyrsta heimsóknin mín á erlendri grundu og fyrsta heimsóknin mín á Bessastöðum var einmitt að taka á móti íslensku keppendunum og þeirra stuðningsneti, Paralympics á Íslandi og öllum þeim.

Ég verð að segja að það hefur djúpa þýðingu fyrir mig að gera það því ég vil trúa að allt sé mögulegt ef við erum tilbúin til að leggja á okkur og styðja vel við þá sem hafa aðra eða öðruvísi getu.

Ég fékk það dálítið með móðurmjólkinni því ég er dóttir þroskaþjálfa og mamma varði starfsævinni í að reyna að berjast fyrir jöfnum rétti og innlimun í samfélagið fyrir þá sem voru kannski ekki eins og allir aðrir.

Fyrir mér hefur þetta heilmikla þýðingu að hafa fengið að taka á móti þessum hópi í fyrstu heimsókninni á Bessastaði og vera með þeim hérna. Ég er ákaflega stolt af því,“ sagði Halla í samtali við mbl.is.

Ættu allir að fylgjast með

Spurð um eigin íþróttabakgrunn hafði hún þetta að segja:

„Ég æfði sund, við erum með fjóra keppendur í sundi, ég æfði sund í stuttan tíma með Breiðabliki en ég æfði nú lengur handbolta og fótbolta og prófaði ýmislegt.

Ég var aldrei sérstaklega góð í íþróttum, það skal tekið fram, en ég hef alltaf haft ákaflega gaman af öllum íþróttum og kannski ekki síst félagslega þættinum sem kemur með þátttöku í íþróttum. Ég vil meina að hann hafi gefið mér mikið.

En líka það að vinna með sjálfan sig, að þroska og efla sjálfan sig. Mér finnst það sérstaklega í þessu samhengi. Ég vissi ekki tölurnar áður en hér heyrði ég ræðu í gærkvöldi þar sem kom fram að við erum að tala um 1,3 milljarð manns, 15 prósent mannkyns, sem eru ekki með það sem við köllum „eðlilega“ getu eða einhvers konar öðruvísi getur.

Ég held að þetta sé bara fegurð manneskjunnar og samfélagsins og ég hef hitt fólk hérna sem blæs mér meiri byr í brjóst heldur en fólk sem við kannski gjarnan horfum til.

Ég held að það ættu allir að horfa á og fylgjast með Paralympics og ná sér í innblástur. Sjá hvað gleði og óbilandi trú getur gert fyrir fólk og samfélag.“

Verður með fána og læti

Halla sagðist sérstaklega spennt fyrir sundinu á leikunum, en fjórir af fimm keppendum Íslands eru sundfólk og tekur Róbert Ísak Jónsson þátt í úrslitum 100 metra flugsunds í S14-flokki þroskahamlaðra klukkan 16.36 í dag.

„Við erum með fjóra sundmenn og við byrjuðum á að horfa á Róbert í morgun. Hann var frábær og komst í úrslit og við erum að fara að horfa úrslitin núna á eftir. Ég er auðvitað gríðarlega spennt að fylgjast með öllu okkar keppnisfólki.

Mér þykir Már alveg ótrúlega skemmtilegur líka og gaman hvernig hann er að vinna með tónlistina og er að nýta sína þátttöku til að hafa áhrif. Sonja, Thelma og Ingeborg, þetta eru ótrúlega flottir fulltrúar allir saman.

Ég gæti ekki valið einn umfram annan en ég fæ þá ánægju að fylgjast með Róberti, bæði í undanúrslitum í morgun og í úrslitum seinna í dag. Ég ætla að vera með læti. Fána og læti!“ sagði Halla Tómasdóttir að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert