Samfelld gæsahúð hjá Höllu forseta

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er eiginlega ólýsanleg tilfinning. Ég er eiginlega búin að vera með samfellda gæsahúð síðasta sólarhringinn, í alvöru talað,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, um upplifun sína af Paralympics-leikunum í París.

Halla hitti fyrir frönsku forsetahjónin ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni á fundi þjóðhöfðingja í París á miðvikudag og var svo viðstödd setningarathöfn leikanna síðar um daginn og kvöldið.

Hún fylgdist svo með Róberti Ísak Jónssyni er hann hafnaði í sjötta sæti í 100 metra flugsundi í S14-flokki þroskahamlaðra í La Défense Arena-höllinni í París í gær.

Hef verið djúpt snortin

„Það er svo magnað að upplifa gleðina og seigluna og að fá að sjá allt það sem þessir keppendur eru búnir að leggja á sig til þess að vera hérna.

Þú sérð það í andlitunum á þeim, sérð það í fasinu á þeim og það kemur einhver ólýsanlegur kraftur með því. Ég er bæði alveg ótrúlega stolt af íslenskum keppendum en ég hef líka verið djúpt snortin að fá tækifæri til þess að hitta keppendur margra annarra þjóða,“ sagði Halla í samtali við mbl.is.

Hún hrósaði þá Frökkum í hástert fyrir skipulagið á leikunum.

„Það er einstakt að vera hérna. Frakkar eru að gera þetta ofboðslega vel. Það er einhver einstakur kraftur og gleði í loftinu sem ég held að við finnum öll fyrir sem erum stödd hérna,“ sagði Halla að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert