„Það eru svolítið blendnar tilfinningar,“ sagði Ingeborg Eide Garðarsdóttir eftir að hún hafnaði í níunda sæti af níu keppendum í kúluvarpi í F37-flokki hreyfihamlaðra á Paralympics-leikunum í París í dag.
„Ég er svolítið sár af því að ég var ekki að ná út úr mér því sem ég á inni. Það er auðvitað gaman að vera hérna og ég er þakklát fyrir að fá að taka þátt en ég vildi meira.
Ég náði bara ekki að hitta á tæknina sem ég er búin að vera að reyna að vinna með. Þetta er í fyrsta skipti sem ég þarf að berjast um sæti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ bara þrjú köst og þarf að berjast fyrir næstu þremur köstum, sem setur smá aukna pressu umfram það að vera hérna á þessu stóra sviði.
Þetta var í fyrsta skipti sem það eru svona svakalega mikil læti í kringum mig þegar ég er að kasta og það krefst aukinnar einbeitingar,“ sagði Ingeborg í samtali við mbl.is eftir að hún lauk leik á þjóðarleikvangnum Stade de France í dag.
Keppinautar hennar áttu margir hverjir besta mögulega dag þar sem þeir náðu ýmist besta árangri sínum á ferlinum eða tímabilinu.
„Já, þær voru greinilega að toppa á réttum tíma. Þetta eru flottar stelpur og það getur verið erfitt að keppa við þær,“ sagði Ingeborg.
Eftir að hin kólumbíska María Salomé Henao Sánchez náði að kasta 9,86 metra í öðru kasti sínu var orðið ljóst að Ingeborg þyrfti að slá eigið Íslandsmet, 9,83 metra, til þess að komast í átta manna úrslit. Henao Sánchez hafnaði í áttunda sæti.
„Já, svo er það nefnilega. Staðan var flott eftir fyrstu umferð. Þá var ég í sjöunda sæti og planið hjá mér var svolítið að halda því. En þá hefði ég þurft að slá eigið met. Auðvitað langar mann að slá eigið met en það var kannski ekki endilega markmiðið.
Ég hefði verið sátt við svona 9,60 til 9,70 metra. Þetta opnunarkast mitt var 9,38 metrar og mér fannst það gott sem opnunarkast. Mér leið vel þá. Í kasti tvö fer ég örlítið í plankann, það var mjög tæpt.
Alveg svo tæpt að yfirdómarinn var ekki viss, hún þurfti að spyrja hinn dómarann. Svo þurfti ég svolítið að reyna að stilla mig af eftir það og á sama tíma að reyna að setja allan minn kraft í þetta þriðja kast til þess að ná sem mestu út úr því.
En þegar mjöðmin fer svona illa í tækninni þá fer krafturinn ekki úr líkamanum og þá er kastið bara ónýtt,“ sagði Ingeborg, sem kastaði 9,26 metra í þriðja og síðasta kasti sínu.
Þrátt fyrir vonbrigðin kvaðst hún reynslunni ríkari eftir þátttökuna á sínum fyrstu Paralympics-leikum.
„Já, það má segja það.“
Ingeborg sagðist þá ætla að líta björtum augum til framtíðar.
„Það er auðvitað fúlt að enda á þessari lengd og vita það að ég á meira inni en góðu köstin koma þá kannski bara á næsta tímabili.“