Ingeborg Eide Garðarsdóttir hafnaði í níunda sæti þegar hún tók þátt í kúluvarpi í F37-flokki hreyfihamlaðra á Paralympics-leikunum á hinum mikilfenglega Stade de France, þjóðarleikvangi Frakklands, í Saint-Denis í úthverfi Parísar í dag.
Lengst kastaði Ingeborg 9,38 metra, en Íslandsmet hennar frá því í apríl á þessu ári er 9,83 metrar.
Fyrsta kast Ingeborgar var 9,38 metrar, annað var dæmt ógilt og þriðja kast hennar var 9,26 metrar.
Þeir átta keppendur sem voru með bestan árangur eftir þrjú köst tryggðu sig áfram í átta manna úrslit og unnu sér þannig inn þrjú köst til viðbótar. Yingli Li frá Kína tryggði sér gullverðlaunin með því að kasta lengst 13,45 metra, sem hún náði að gera strax í öðru kasti.
Ingeborg, sem er 28 ára, var að taka þátt á sínum fyrstu Paralympics-leikum.