„Af hverju var ég ekki áfram í skák?“

Már Gunnarsson.
Már Gunnarsson. Ljósmynd/ÍF

„Ég er náttúrlega mjög þreyttur akkúrat núna en tilfinningin er góð að hafa náð þessu,“ sagði Már Gunnarsson eftir að hann tryggði sér sæti í úrslitum í 100 metra baksundi í S11-flokki blindra á Paralympics-leikunum í París í morgun.

„Það væri ömurlegt ef þetta væri bara búið. Ég hef annað tækifæri seinni partinn til þess að gera betur. Ég er búinn að synda núna fyrsta sundið með áhorfendum þannig að ég er búinn að ná því stressi svolítið úr mér.

Síðan var svo gaman að labba inn og veifa fólkinu. Ég tók eftir því þegar ég veifaði þá var stúkan alveg „vúú!“ Það er mikil stemning hérna,“ sagði Már í samtali við mbl.is eftir sundið í morgun.

Paris La Défense Arena sundhöllin er smekkfull líkt og hún hefur verið aðra keppnisdaga á Paralympics-leikunum en höllin rúmar 10.000 áhorfendur.

Þoli ekki að vakna á morgnana

Úrslitin fara fram í dag klukkan 16.31, 18.31 að staðartíma. Már kvaðst kunna betur við að synda síðdegis eða á kvöldin þar sem hann sé ekki mikill morgunhani.

„Ég ætla að reyna að hvíla mig. Ég er píanóleikari og söngvari, ég þoli ekki að vakna á morgnana. Algjörlega þoli það ekki.

Stundum velti ég því fyrir mér af hverju ég er í þessari íþrótt, af hverju var ég ekki bara í skák áfram eða eitthvað?“ sagði Már í léttum dúr.

„Ég ætla heim að hvíla mig og verð góður á eftir,“ bætti hann við.

Hvernig sérðu úrslitasundið fyrir þér?

„Ég kem sjötti inn í úrslit. Það væri óskandi að mér tækist að bæta mig. Ég mun leggja allt í sölurnar til þess að reyna að bæta tímann minn í kvöld,“ sagði Már að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka