„Hef áður verið með stórar yfirlýsingar“

Í ólympíuþorpinu. Efri röð: Halla Tómasdóttir forseti, Róbert Ísak Jónsson, …
Í ólympíuþorpinu. Efri röð: Halla Tómasdóttir forseti, Róbert Ísak Jónsson, Ingeborg Eide Garðarsdóttir, Már Gunnarsson, Björn Skúlason. Neðri röð: Sonja Sigurðardóttir, Thelma Björg Björnsdóttir. Ljósmynd/ÍF

„Það eru blendnar tilfinningar. Ég er svona að reyna að koma böndum á þær,“ sagði Már Gunnarsson eftir að hann hafnaði í sjöunda sæti og bætti eigið Íslandsmet í 100 metra baksundi í S11-flokki blindra á Paralympics-leikunum í París í dag.

Már synti á 1:10,21 mínútum en fyrra met hans frá því á leikunum í Tókýó fyrir þremur árum var 1:10,36 mínútur.

„Þetta er búið að vera þriggja ára verkefni eða meira. Ég bætti þennan tíma síðast fyrir þremur árum og hélt þá pínu að ég myndi ekkert gera þetta aftur. Ég hætti og hélt að ég myndi ekki gera þetta aftur.

Ég byrjaði síðan aftur að æfa sund þegar ég flutti til Bretlands. Samt sem áður næ ég að skila bætingu núna. Græðgin í mér segir auðvitað að ég hefði viljað bæta þetta meira og vera kannski ofar.

En ég get í alvöru ekki kvartað. Þetta sund gekk vel. Mér tókst að synda hraðar og fann að það var ákveðin tilfinning í þessu sundi sem ég hef ekki fundið áður.

Á leiðinni til baka þegar ég er vanur að deyja meira þá fannst mér ég ná að halda taktinum mínum betur. Það er eitthvað sem verður frábært í reynslubankann fyrir mig, það er að segja ef ég tek síðan ákvörðun um að halda áfram,“ sagði Már við mbl.is eftir sundið.

Ekki komið að því að taka ákvörðun

Spurður hvort það stæði til að hætta aftur eða gera á hlé á sundiðkun sagði hann:

„Ég hef áður verið með stórar yfirlýsingar um að hætta og hætta ekki. Nú ætla ég að taka mér 4-5 daga frí og reyna að hugsa ekki neitt. Síðan er ég að skipuleggja tónleikaferðalag með The Royal Northern College Session Orchestra í nóvember þar sem við komum meðal annars til Íslands.

Ég fer að undirbúa það og svo eftir kannski 3-4 vikur fer ég að reyna að taka ákvörðun um hvort ég haldi áfram, því ég hef alla burði í að fara á næstu leika ef ég vil. Eða ekki ef mér býðst jafnvel eitthvað annað betra eða skemmtilegra tækifæri.

Það mikilvægasta er að taka ákvörðun um að gera eitthvað og fylgja því eftir en það er ekki alveg komið að því að ég taki þessa ákvörðun.“

Gefur af þér og færð það til baka

Þegar Már gekk inn í Paris La Défense Arena-höllina var honum vel tekið af áhorfendum.

Voru mest fagnaðarlæti þegar þú gekkst inn?

„Ég vil meina það!“ sagði Már og getur ofanritaður skrifað undir það.

„Þetta var bara klikkað. Því miður heyri ég voðalega lítið þegar ég er í kafi en þegar maður labbar inn og veifar tek ég eftir því að þegar maður sýnir fólki athygli þá fær maður hana til baka.

Þegar maður gefur af sér til fólksins í höllinni þá fær maður það til baka frá þeim,“ sagði hann að lokum um stemninguna í fullri 10.000 manna höllinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert