Var hálfgrenjandi uppi í stúku

Már Gunnarsson.
Már Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er hrikalega gaman að vera hérna. Þetta er mjög mikið öðruvísi en síðast, sem er allt saman jákvætt,“ sagði Már Gunnarsson, sem keppir í 100 metra baksundi í S11-flokki blindra á Paralympics-leikunum í París í dag. 

Undanúrslitin hefjast klukkan 8.15 og úrslitin hefjast klukkan 16.31. Már keppir á sínum öðrum leikum en á þeim fyrstu í Tókýó árið 2021 voru engir áhorfendur leyfðir. 

„Ég tel mig vera heppinn að hafa náð þeim árangri að koma mér hingað. Ég geri mitt besta hvern einasta dag til þess að njóta þess í botn vegna þess að ég veit að þetta sund mitt á sunnudaginn er að fara að vera ein mínúta.

Ég er búinn að eyða ég veit ekki hversu miklum tíma í að æfa mig fyrir þessa einu mínútu og svo verð ég bara búinn.

Þegar ég er búinn að keppa, hvort sem ég standi mig vel eða ekki, vil ég geta hugsað til þess að ég hafi haft gaman og var að njóta mín hérna hvern einasta dag. Þannig að ég sé að taka jákvæðar og góðar minningar úr þessu ferðalagi,“ sagði Már í samtali við mbl.is í ólympíuþorpinu í Saint-Denis á föstudag.

Íslenski hópurinn bregður á leik í ólympíuþorpinu.
Íslenski hópurinn bregður á leik í ólympíuþorpinu. Ljósmynd/ÍF

Vá hvað það var flott

Spurður hver tilfinning hans væri fyrir sundinu í dag sagði Már:

„Ég er auðvitað alveg kvíðinn (hlær)! Sérstaklega eftir að maður heyrði í þessum 10.000 áhorfendum uppi í stúku í gær [á fimmtudag] þegar Róbert [Ísak Jónsson] var að keppa. Það var klikkað að upplifa þetta.

Ég var hálfgrenjandi uppi í stúku, sérstaklega þegar ég heyrði í Frakkanum syngja þjóðsönginn eftir að hann vann, vá hvað það var flott. Það er líka hluti af góðu orkunni sem ég er að sjúga í mig hérna.“

Vísaði hann þar til Frakkans Ugos Didiers sem vann í 400 metra skriðsundi í S9-flokki hreyfihamlaðra. Róbert Ísak hafnaði þá í sjötta sæti í úrslitum 100 metra flugsunds í S14-flokki þroskahamlaðra og sló eigið Íslandsmet.

Mikil og góð stemning var í smekkfullri Paris La Défense Arena-höllinni á fimmtudag og allt útlit fyrir að það sama verði uppi á teningnum í dag þegar Már stingur sér til sunds líkt og Thelma Björg Björnsdóttir, sem keppir í 100 metra bringusundi í SB5-flokki hreyfihamlaðra.

Undanúrslit í hennar flokki hefjast klukkan 9.25 og úrslitin klukkan 17.55.

Nánar var rætt við Má í Morgunblaðinu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert