„Góð hvíld að fá Covid“

Í ólympíuþorpinu. Efri röð: Halla Tómasdóttir forseti, Róbert Ísak Jónsson, …
Í ólympíuþorpinu. Efri röð: Halla Tómasdóttir forseti, Róbert Ísak Jónsson, Ingeborg Eide Garðarsdóttir, Már Gunnarsson, Björn Skúlason. Neðri röð: Sonja Sigurðardóttir, Thelma Björg Björnsdóttir. Ljósmynd/ÍF

„Tilfinningin er mjög góð,“ sagði Sonja Sigurðardóttir eftir að hún tryggði sér sæti í átta manna úrslitum í 50 metra baksundi í S3-flokki hreyfihamlaðra á Paralympics-leikunum í París í morgun.

Sonja greindist með kórónuveiruna í síðustu viku og gat af þeim sökum ekki verið fánaberi við setningarathöfn leikanna síðastliðinn miðvikudag eins og til stóð.

Spurð hvernig henni hafi liðið á meðan sundinu stóð eftir að hafa jafnað sig eftir smitið sagði Sonja í samtali við mbl.is:

„Það er eins og ég hafi ekki verið með Covid. Það var bara góð hvíld að fá Covid held ég! En núna eftir sundið er ég þreytt í höndunum.“

Fannstu fyrir einhverri þreytu þegar þú varst að synda?

„Nei, en fæturnir voru svolítið að síga niður,“ útskýrði hún.

Ætlar að bæta tímann

Sonja er spennt fyrir úrslitasundinu klukkan 16.05 í dag, 18.05 að staðartíma, og sagði markmiðin skýr:

„Ég ætla að gera mitt besta í kvöld og bæta tímann vonandi.“

Hún synti á 1:10,65 mínútum í morgun en Íslandsmet hennar er 1:07,82 mínútur.

Hyggstu bæta tímann sem þú náðir í morgun eða Íslandsmetið?

„Það kemur í ljós!“ sagði Sonja að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka