Sonja í sjöunda sæti og sló eigið Íslandsmet

Sonja Sigurðardóttir eftir keppni í undanúrslitum í morgun.
Sonja Sigurðardóttir eftir keppni í undanúrslitum í morgun. Ljósmynd/ÍF

Sonja Sigurðardóttir hafnaði í sjöunda sæti og sló eigið Íslandsmet er hún synti í átta manna úrslitum í 50 metra baksundi í S3-flokki hreyfihamlaðra á Paralympics-leikunum í París í dag.

Sonja synti á 1:07,46 mínútum en fyrra metið var 1:07,82 mínútur.

Hún var með áttunda besta tímann inn í úrslitin eftir að hafa synt á 1:10,65 mínútum í undanúrslitum í morgun.

Allt íslenska sundfólkið komst í úrslit í sínum greinum en Sonja hefur ekki lokið keppni í París.

Hún er eini íslenski keppandinn sem keppir í tveimur greinum. Sonja keppir sömuleiðis í fyrramálið, í 100 metra skriðsundi, einnig í S3-flokki. Hefjast undanúrslitin klukkan 8.51.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert