Íslenski ráðherrann kemur stærri maður heim

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt sendinefnd Íþróttasambands fatlaðra …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt sendinefnd Íþróttasambands fatlaðra og fleirum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Dvölin hefur verið upplýsandi, skemmtileg og einfaldlega mjög ánægjuleg,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um veru sína í París í tilefni Paralympics-leikanna sem nú standa yfir.

Guðmundur Ingi flaug til Parísar um liðna helgi og aftur til baka í gærkvöldi. Hann horfði á Ingeborg Eide Garðarsdóttur keppa í kúluvarpi á laugardag, Má Gunnarsson og Thelmu Björgu Björnsdóttur í sundi á sunnudag og Sonju Sigurðardóttur í sundi í gær.

„Mér finnst frábært að sjá hvað er margt fólk hérna, hvað það eru margir áhorfendur. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með keppendunum.

Svo þegar maður kemur á staðinn, þó maður sjái ýmislegt í sjónvarpinu, þá áttar maður sig ennþá betur á því hversu mikil vinna og kraftur er á bak við það sem fatlaðir íþróttamenn hafa lagt í þetta,“ sagði Guðmundur Ingi er mbl.is ræddi við hann í Ólympíuþorpinu í París í gær.

Fyrirmyndir fyrir fatlað sem ófatlað fólk

Auk þess að fylgjast með íslensku keppendunum horfði Guðmundur Ingi á nokkrar íþróttagreinar þar sem Ísland átti ekki fulltrúa.

„Maður er að sjá blindrafótbolta, þar sem fólk sér ekki boltann en það er kringla inni í honum sem heyrist í þannig að þú fylgir hljóðinu.

Maður er að horfa á hlaupara í 100, 200 eða 400 metra hlaupum sem eru alveg blindir og eru með leiðsögumenn með sér, sem hlaupa með þeim algjörlega í takt. Þetta er alveg ótrúlegt að sjá og upplifa hvernig er hægt að fara yfir hindranir og ná ótrúlegum árangri.

Þetta eru frábærlega mikilvægar fyrirmyndir fyrir ungt fólk, fatlað sem ófatlað, en ekki síst fatlaða krakka sem sjá fyrirmyndir í þessu flotta íþróttafólki sem við eigum hérna. Sérstaklega þegar maður horfir til þess að íþróttaþátttaka fatlaðra barna á Íslandi er ekki nema fjögur prósent.

Það er eitthvað sem við verðum að breyta heima á Íslandi því það eru svo margvísleg jákvæð áhrif á lýðheilsu, félagsfærni, bara einfaldlega að vera þátttakendur í samfélaginu, sem fylgir því að koma inn í íþróttir og íþróttahreyfinguna,“ sagði hann.

Þarf einungis samtakamátt

Á síðasta ári var komið á fót átakinu „Allir með“ sem miðar að því að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn innan íþróttahreyfingarinnar og hækka þetta lága hlutfall.

„Allir með er að ganga mjög vel og ég er að vonast til þess að við sjáum aukna þátttöku fatlaðra barna inni í íþróttafélögum.

Þetta er eins og svo margt, það þarf bara samtakamátt íþróttahreyfingarinnar, foreldra, skólasamfélagsins og með því móti eigum við að geta aukið þetta hlutfall til muna af því að þetta skiptir svo miklu máli fyrir börnin okkar,“ sagði Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi ræðir við blaðamann mbl.is.
Guðmundur Ingi ræðir við blaðamann mbl.is. Ljósmynd/ÍF

Ráðherra fatlaðs fólks sýni stuðning

Spurður út í það hvernig heimsóknina á Paralympics-leikana hafi borið að sagði Guðmundur Ingi:

„Íþróttasamband fatlaðra hafði samband við mig stuttu eftir að ég varð félagsmálaráðherra og hvatti mig til þess að koma.

Ég ákvað mjög fljótt að ég myndi vilja gera það því mér finnst það líka skipta máli að ráðherra fatlaðs fólks sýni sinn stuðning með því að mæta á Paralympics.

Ég sé sko alls ekki eftir því, því ég hef bara stækkað við að koma hingað og skil meira. Maður fer héðan reynslunni ríkari og að ég held aðeins stærri maður en þegar maður kom.“

Er þetta í fyrsta sinn á ævinni sem Guðmundur Ingi fer á stórmót.

„Ég hef aldrei áður farið á svona alþjóðlegt stórmót. Ég æfði reyndar frjálsar í gamla daga en ég komst ekki svo langt að fara á stórmót!

Það er auðvitað líka alveg gríðarleg upplifun að vera á leikvangi, eins og á frjálsíþróttavellinum [Stade de France], með 70.000 manns. Það er alveg geggjað,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert