Var upptekinn af því að sanna sig gagnvart ófötluðum

Íslensku keppendurnir fimm ásamt Geir Sverrissyni í ólympíuþorpinu í París.
Íslensku keppendurnir fimm ásamt Geir Sverrissyni í ólympíuþorpinu í París. Ljósmynd/ÍF

Geir Sverrisson, stjórnarmaður hjá Íþróttasambandi fatlaðra og fyrrverandi afreksíþróttamaður, er staddur á Paralympics-leikunum í París þar sem hann er íslenska hópnum innan handar.

Sjálfur tók Geir þátt á fjórum Paralympics-leikum, síðast árið 2000 í Sydney, og hefur ekki farið á leika aftur þar til nú.

Hann afrekaði það að vinna til verðlauna í tveimur ólíkum íþróttagreinum á sömu leikunum, í Barcelona árið 1992.

Vann Geir þá til gullverðlauna í 100 metra bring­u­sundi í flokki SB9 og til bronsverðlauna í 100 metra hlaupi í flokki TS4.

Sá eini með fötlun í landsliði ófatlaðra

Auk þess er hann eini íslenski íþróttamaðurinn með fötlun sem hefur verið valinn í landslið ófatlaðra.

„Ég var í svolítinn tíma orðinn fastamaður í landsliði Frjálsíþróttasambandsins í boðhlaupi, 4x400 metra hlaupi. Þetta voru allavega einhver fjögur verkefni sem ég fór út í með landsliðinu.

Á þeim tíma fannst mér það rosalega mikið atriði þar sem ég var svo upptekinn af því að sanna okkur gagnvart ófötluðum. En eftir á að hyggja finnst mér það svolítið leiðinlegt að hafa verið upptekinn af því.

Ég var mjög upptekinn af því. Mér finnst það svolítil synd. Af hverju var ég svona upptekinn af því? Ég veit það ekki, kannski var það bara aldurinn,“ sagði Geir í samtali við mbl.is

Heldurðu að þetta verði einhvern tímann leikið eftir?

„Já, vonandi. Ég bara vona það af því að ef maður setur sér einhver markmið og nær þeim svo þá setur maður sér ný markmið.

Ég vona að það sé enginn jafn upptekinn af því eins og ég var en vonandi gerist það bara af sjálfu sér með góðum árangri hjá íþróttamönnum,“ sagði Geir einnig.

Nánar er rætt við Geir í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert